Barátta



Hef ekki haft mikinn tíma til að skrifa hér inn. Litli herramaðurinn minn passar alveg uppá að mamman hafi ekkert of mikið af frítíma. Passar yfirleitt alltaf að þegar ég sest við tölvuna og ætla að skrifa hérna inn þá vaknar hann....eða heimtar athygli hafi hann þegar verið vakandi.
Ég er að standa í því núna að reyna að berjast við stéttafélagið mitt til að fá sjúkradagpeninga svo að ég geti verið lengur heima með Stein Hrannar. En stundum held ég að þau reyni að tuða nógu mikið svo að fólk gefist upp við að sækja um styrk hjá þeim. Ég er búin að senda nokkra pósta og svörin bera þess skýr merki að pósturinn er ekki lesinn. Ef ég fæ engan styrk þaðan þá veit ég ekki alveg hvað ég geri ... þar sem ég get ekki sett strákinn til dagmömmu fyrr en hvítu blóðkornunum hefur fjölgað hjá honum. Og þar sem fjölskyldan mín er fyrir norðan þá hef ég ekki pössun fyrir hann til að komast sjálf að vinna.
Fékk umönnunargreiðslur frá TR alveg heilar 26 þúsund á mánuði... þannig að ég alveg flýt í peningum. Ótrúlegt... maður kemst nú ekki langt á 26 þúsundum í dag.
Ætlaði að fara að koma mér í ræktina aftur. Og var meira að segja búin að redda mér fari í ræktina... en nei ... þá er barnagæslan lokuð á milli 14 og 16... sem var sá tími sem ég ætlaði að fara í ræktina því að þá er svo lítið að gera og líklegt að það væri lítið um börn í gæslunni... get náttúrulega ekki sett hann þar í gæslu ef það eru mörg börn frekar en að setja hann til dagmömmu. Þannig að ég verð að viðurkenna að ég er ekki búin að vera alveg nógu jákvæð undanfarið. Virðist allt einhvernveginn vera á móti mér. En það þýðir ekkert að láta bugast.
Skellti mér bara í að setja upp jólaseríur og leyfði mér að setja þær í samband þó að það sé ekki komin aðventa. Ég held líka að ég þurfi ekkert að vera að hafa samviskubit þar sem það eru þónokkrar íbúðir hérna í kring komnar með seríur.
Komst að því um daginn að ég væri komin með nýjan nágranna. Tóta vinkona Jóa flutti inn í nr 14. Og er hún heima með stelpuna sína, sem er 10 mánaða. Við erum því núna búnar að vera að eyða þónokkrum tíma saman. Og hún er alveg yndisleg að bjóða mér með sér hingað og þangað ef hún er eitthvað að þvælast... bjóða mér yfir í hádegismat og svo meira að segja lánaði hún mér bílinn sinn til að fara með Stein Hrannar í 8 mánaða skoðunina af því að það var svo mikil rigning. Það er nú ekki slæmt að eiga svona góða vini.
Við Steinn Hrannar skruppum norður í lok okt og vorum í 2 vikur fyrir norðan. Það er voða kósí að komast svona norður. En okkur tókst að sjálfsögðu að eyða fyrstu dögunum í veikindi. Ég þakka þó fyrir að hafa verið fyrir norðan í þessum veikindum. Hefði ekki viljað standa í þessu ein hérna fyrir sunnan.
Haldið þið að mér hafi ekki bara tekist að læsa mig úti um daginn. Mér hefur nú ekki tekist það hingað til. Enda hef ég alltaf verið með varalykla hjá einhverjum. En núna passaði það... Sissi var sá eini sem var með aukalykla hérna að íbúðinni og hann er nýfluttur norður. Og svona til að gera hlutina ennþá skemmtilegri þá tók hann lyklana með sér....hehehe...nýtast mér ekki mikið á Akureyri. Ég þurfti því að hringja í neyðaropnun og borga alveg fullt fullt af pening fyrir það. Var nú samt ódýrara en að senda eftir Sissa...hehe.
Ég get amk ekki sagt að líf mitt sé viðburðasnautt...þó að mér finnist aldrei neitt vera að gerast. Aðalbloggið er þó núna barnalandssíðan hans Steins Hrannars. Svo endilega verið óhrædd við að biðja um aðgang.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Lilliendahl

Þú ert hugrökk og sterk og ekki sjéns í helv... að þú leggir árar í bát! Það mun rofa til, lofa því ;)

Erna Lilliendahl, 28.11.2008 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband