Árið að enda

 

Jæja... ekki hef ég nú verið virk í bloggheimunum þetta árið.   Þær litlu upplýsingar sem ég hef sett á netið hafa að mestu farið inn á steinnhrannar.barnaland.is  og svo statusar á facebook.  Þetta hefur þó einkum verið vegna tímaleysis og tölvuleysis.  Hef ekki kunnað við að vera að setja inn heilu bloggin á vinnutíma.

Ég byrjaði að vinna aftur, eftir fæðingarorlofið, í febrúar.  Fyrstu mánuðirnir fóru að mestu í veikindi Steins Hrannars.  Í apríl rættist þó úr þessu eftir að hann fékk rör í eyrun.  Í maí keypti ég mér svo bíl, eftir að hafa verið bíllaus í rúmt ár.  Það var rosalegur munur að fara loksins að komast leiðar sinnar á tiltölulega flótvirkan hátt.  Þegar bíllinn var kominn fór ég loksins að komast í ræktina aftur.  Það hefur þó gengið frekar hægt að ná af mér þeim kílóum sem ég bætti á mig á meðgöngu og brjóstagjöf.  En 10 kg eru þó farin núna og því bara 5 eftir.  Markmiðið er svo að ná þeim af á næstu tveimur og hálfum mánuði eða nánar tiltekið fyrir afmælið hans Steins Hrannars.  Ég hef þó einnig ákveðið að vera ekki endilega að horfa í allt sem ég set ofan í mig eða hafa verulegar áhyggjur um jólin.
Sl sumar var smá pússl þar sem ég átti voða lítið sumarfrí inni.  En þurfti að taka Stein Hrannar í 4 vikna sumarfrí frá dagmömmunni.  Það endaði því með því að hann var í viku pössun hjá Freyju systir svo var ég með honum í fríi í viku.  Þá viku fórum við í sveitina en ég skildi hann svo eftir í sveitinni á meðan ég fór og vann í viku.  Þetta var í fyrsta skipti sem við vorum aðskilin að næturlagi (þ.e. eftir að hann útskrifaðist af sjúkrahúsinu).  Held þó að þessi vika hafi verið erfiðari fyrir mig en Stein Hrannar.  Ég drekkti mér því bara í vinnu, rækt og nuddi þessa viku.  Fór svo aftur norður til að ná í hann og var aðra viku í fríi. 
Það passaði svo að eftir sumarfrí byrjaði Steinn Hrannar á leikskóla.  Orðinn svo stór strákur.  Hefur það gengið vonum framar.  Vorkenni ég honum þó stundum þar sem dagarnir hjá honum eru þónokkuð langir.  Hann er kominn á leikskólann rétt rúmlega 7:30 á morgnanna.  Ég er svo að sækja hann aftur á bilinu 16:15 - 16:30 og 4 daga vikunnar brunum við þá beint í ræktina.  Og þar er hann til svona 18:30.
Steinn Hrannar er þó algjör hetja og tekur þessi með jafnaðargeði. 
Það kom svo í ljós núna á haustmánuðum að ungi pilturinn er með lausa liði.  Og hefur það verið að aftra honum í að ganga.  Honum hefur þó farið gífurlega mikið fram sl tvo mánuði og er bara ótrúlega duglegur.  En daginn áður en ég fór í jólafrí fékk ég hringingu frá sjúkraþjálfara og á gaurinn að byrja í sjúkraþjálfun strax 5. janúar.  Fyrstu tvö skiptin fara þó í að meta stöðuna og sjá hvað þarf að gera.
Þrátt fyrir að hafa verið að byrja að vinna aftur eftir fæðingarorlof þá hefur þetta ár verið langt og pínu strembið.  Stutt sumarfrí gerði það að verkum að ég var orðin mjög þreytt núna fyrir jólafrí og ákvað því að leyfa mér að taka frí milli jóla og nýárs.  Sá tími nýtist mér vonandi að einhverjum hluta til að endurhlaða batteríin.  Þetta kemur þó niður á sumarfríi næsta árs.  En það verður brúað einhvernveginn...seinni tíma vandamál.
Vonast ég einnig til að nýja árið komi með meiri reglu og rólegheitum þannig að ég hafi meiri tíma til að eyða með vinum (sem sumir hverjir hafa lítið fengið að sjá mig á því ári sem senn er á enda).

Vil ég þó að sjálfsögðu þakka ómetanlegan stuðning sem ég hef hlotið á þessu ári.  Og vona að ég geti einhverntíman endurgoldið greiðann.

 Knús á ykkur
Gulla

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Lilliendahl

Knús á ykkur fallegu mæðgin

Erna Lilliendahl, 27.12.2009 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband